Vinnureglur skrifstofu Alþingis um skráningu ferða og endurgreiðslu ferðakostnaðar skv. 3.-6. gr. reglna um þingfararkostnað

(Mars 2018, endursk. í ágúst 2018 og október 2021.)

 

1. Heimferð. 

Alþingi greiðir ferðir fyrir alþingismenn, sem eru búsettir í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum, milli heimilis og Alþingis sem hér segir:  

  1. Greiddar eru daglegar ferðir til og frá heimili þingmanna sem búa í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. 
  2. Greiddar eru vikulegar heimferðir þeirra sem halda tvö heimili. 
  3. Skrá skal ferðina sem „heimferð“ ásamt dagsetningu. Ekki er þörf á frekari skýringu. 
  4. Ef ferðir til heimilis skv. b-lið eru fleiri en ein á viku kann ferð að falla undir liðinn „fundaferð“ (sbr. lið 2).    

 

2. Fundaferð. 

Þingmaður skal skrá alla fundi sem hann sækir og hann óskar endurgreiðslu á:

  1. fyrir ferð á eigin bíl, 
  2. flugferð, 
  3. fyrir farartæki sem Alþingi leggur honum til (bílaleiga). 

Tilefni fundar getur verið boð um fund sem þingmaðurinn fær eða fundur sem þingmaðurinn boðar sjálfur. 

 

Fundi skal skrá í sérstaka akstursdagbók (akstursdagbok.is). Tilgreina skal erindi, tímasetningu og skulu áskilin staðfestingargögn fylgja, svo sem fundarboð. Í bókun skrifstofunnar skal einungis tilgreina ferð með þrennum hætti:

 

  1. heimferð 
  2. fundur í kjördæmi, 
  3. fundur utan kjördæmis. 

 

Nákvæmari skráning er aðeins til þess að gefa kost á reglulegu eftirliti endurskoðunar.  

3. Notkun einkabíla.  

Almennt er þingmönnum heimilt að nota einkabíla og fá aksturinn endurgreiddan. Ef akstur er verulegur skal fylgja öðrum reglum (bílaleigur).  

4. Notkun bílaleigubíla.  

Um notkun bílaleigubíla gilda eftirfarandi reglur: 

 

  1. Ef fundur er utan 15 km frá dvalarstað eða ferðin er í tengslum við flugferð getur þingmaðurinn notað bílaleigubíl í stað einkabíls.  
  2. Þegar þingmenn þurfa að nota flug til fundaferða eða heimferða skulu þeir taka leigubíl til og frá flugvelli, ella bílaleigubíl ef heimili er fjarri flugvelli eða ferðin er hluti af fundaferð. 
  3. Sama á við um tilfallandi langar fundaferðir. Þá noti þingmenn bílaleigubíl. 
  4. Skrifstofan veitir leiðbeiningar um notkun bílaleigubíla og skal hafa samráð við hana um leiguna svo og ef einhver vandræði eða óhöpp verða í ferðinni.  
  5. Þingmaðurinn skal leggja út fyrir kostnaði og fær hann útgjöld endurgreidd skv. framlögðum reikningi.  

 

5. Föst afnot af bílaleigubíl í Reykjavík.

 

  1. Þingmönnum sem halda tvö heimili er heimilt að hafa bifreið (bílaleigubíl í A-flokki) til afnota um þingtímann í Reykjavík svo að þeir þurfi ekki að aka einkabíl til Reykjavíkur frá heimili annars staðar á landinu. 
  2. Alþingi greiðir mánaðarleigu sem felur í sér tryggingar, skoðun, olíuskipti og dekkjaskipti fyrir sumar og vetur, auk tilfallandi viðhalds. 
  3. Þingmenn skulu greiða eldsneyti á bifreiðina, bæði vegna ferða til og frá dvalarstað í Reykjavík og til að kosta tilfallandi einkaafnot á höfuðborgarsvæðinu. 
  4. Skrá skal öll lengri aksturserindi (t.d. fundaferðir) í akstursbók eins og um akstur á einkabíl væri að ræða. 
  5. Skrá skal lengri akstur í einkaþágu sérstaklega, enda sé hann utan höfuðborgarsvæðis.       

6. Föst afnot af bílaleigubíl þegar regluleg akstursþörf er mikil. 

Þingmenn utan Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæma sem aka daglega til og frá heimili og Alþingi og aðrir þingmenn sem aka að minnsta kosti 15.000 km á ári skulu nota bílaleigubíl. 

 

  1. Alþingi greiðir mánaðarleigu sem felur í sér tryggingar, skoðun, olíuskipti og dekkjaskipti fyrir sumar og vetur, auk tilfallandi viðhalds. 
  2. Einnig greiðir Alþingi eldsneyti. 
  3. Skrá skal öll aksturserindi utan höfuðborgarsvæðis í akstursbók. 
  4. Skrá skal lengri akstur í einkaþágu sérstaklega.  

7. Flugferðir o.fl. 

 

  1. Þingmaður skal leggja út fyrir flugmiðum, veggjöldum, ferjugjöldum og öðrum ótilgreindum gjöldum er tengjast ferð, hvort sem um er að ræða einstakar ferðir eða kaup á afsláttarkortum. 
  2. Þingmaðurinn fær kostnaðinn skv. a-lið endurgreiddan skv. framlögðum reikningi með viðeigandi skýringum.   

8. Gistikostnaður á fundum.  

 

  1. Heimilt er að endurgreiða gistikostnað í eigin kjördæmi þegar hann tengist boðuðum sameiginlegum fundi þingflokks eða kjördæmahóps.  
  2. Sama á við ef þingmenn halda tvö heimili og sérstaklega stendur á, t.d. óheppilegt sé að rjúfa fundaferð með akstri heim eða vegna veðurs. Þá er einungis endurgreidd gistinótt.  
  3. Heimilt er að endurgreiða gistingu og uppihald á fundaferðum í öðrum kjördæmum en eigin kjördæmi.  
  4. Sama á við um gögn til stuðnings endurgreiðslum þessa kostnaðar eins og annarra ferða skv. þessum vinnureglum.